Saturday, November 10, 2007

Góðar bækur

Held mig langi að lesa næstum allar þær bækur sem eru að koma út fyrir jólin, allavega þegar ég fór í Eymundson í gær til að kaupa bókina hans Arnalds Indriðasonar þá langaði mig að kaupa og lesa flestar nýju bækurnar sem ég skoðaði.  
Hlakka til þegar þær koma á bókasafnið ef ég hef þá tíma til að lesa, það verður örugglega allt komið á fullt í náminu þegar það gerist. Í jólafríinu ætla ég sko að lesa, er að sanka að mér bókum til að eiga þá, vonandi fá vinir og vandamenn mikið af bókum í jólagjöf svo hægt er að skiptast á með þær.  Las eina góða bók í sumar en hún heitir Leynda kvöldmáltíðin og er eftir Javier Sierra.  Mér fannst þessi bók skemmtileg og spennandi og get mælt með henni en maðurinn minn var ekki eins hrifinn en svona er þetta fólk hefur mismunandi smekk.  Ef þið hafið ekki lesið bækurnar hennar Kristínar Marju Baldursdóttur þá mæli ég með því að þær verði lesnar, sérstaklega fannst mér bókin Hús úr húsi vera skemmtileg og heillandi, sama má segja um Mávahlátur. Mér finnst allar bækurnar hennar Kristínar vera einstaklega vel skrifaðar og grípandi.  

Wednesday, November 7, 2007

Bókablogg

Jæja loksins er tími til að setjast niður og pústa aðeins nú þegar maður er búin að skila lokaverkefninu í vinnulagi og áður en hafist er handa af alvöru við internetsverkefnið.  Já það er brjálað að gera þegar maður er í skóla og með fjölskyldu og hund og páfagauk og stórt hús sem þarf að þrífa.  Mamma kom í dag og var hjá skvísunni minni sem er veik á meðan ég fór niður í háskóla að skila verkefninu og þegar ég kom aftur heim var mín búin að þrífa.  Já allt ryksugað og vel þurrkað af öllu og búið að fá eldri börnunum hreingerningverkefni og flest komið á sinn stað, já þessar mömmur hvað gerði maður án þeirra?  Síðustu kvöldin er maðurinn minn búin að sjá um að lesa fyrir börnin áður en þau fara að lúlla út af miklu álagi hjá móðurinni en sem sagt í kvöld var komið að mér að lesa og þá er komið að bókablogginu. Í gær birtist pabbi með bók sem ég og bræður mínir lásum aftur og aftur þegar við vorum lítil. Þessi bók heitir Pipp í fjársjóðsleit og ég byrjaði sem sagt að lesa hana í kvöld og þvílík nostalgía ég hvarf til baka um nokkur ár og krakkarnir voru hálf undrandi á mömmu sinni hvað hún nennti að lesa MIKIÐ og hefði getað lesið lengur ef klukkan hefði ekki verið orðin svona margt og mikið og kominn háttatími fyrir börn en ég get mælt með Pipp bókunum og ég hlakka til að lesa næstu kafla fyrir snúllurnar mínar.

Saturday, November 3, 2007

Uppáhaldsbók og frábærlega góður krimmi

Svo ég haldi nú áfram með uppáhaldsbækurnar mínar sem eru ansi margar þá verð ég að nefna Minnigar Geisju eftir Arthur S. Golden.  Sagan fjallar um stelpuna Nittu sem er tekin burt af heimili sínu þegar mamma hennar deyr og seld í ánauð í geisjuhús og alin þar upp til að verða geisja.  Við fylgjumst með lífi hennar og hvernig henni vegnar.  
Sagan er öll svo dásamleg og myndræn.  Fyrir nokkrum árum kom út mynd eftir bókinni og mér fannst ótrúlega skemmtilegt að horfa á hana og sjá einhvernvegin allt sem ég hafði ýmindað mér þegar ég las hana verða að raunveruleika.  Ég lofa ykkur því að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum ef þið lesið bókina.

Svo las ég líka frábæran krimma sem heitir Þrír dagar í október og er eftir  Fritz Má Jörgensson.
(bróður minn)Sagan er ótrúlega spennandi og heldur manni vel vakandi.  Þetta er ein af þeim glæpasögum sem ekki er hægt að leggja frá sér fyrr en hún er búin.  Mæli sko með þessari.

Friday, November 2, 2007

Uppáhaldsbækur.

Ég á mér nokkrar uppáhaldsbækur og sumar hef ég lesið aftur og aftur.  Ein af þeim er Ilmurinn eftir Patrick Süskind.  Hún á að gerast á 18 öld og segir frá Jean-Baptiste Grenouille og hans einstaka lyktarskyni, hann þekkir hverja einustu lykt og nýtir sér það til að búa til ótrúlega góð ilmvötn.  Sjálfur er hann algerlega lyktarlaus og til að búa til ilm á sig fremur hann hryllileg ódæðisverk.  Bókin er vel skrifuð og heldur athygli manns allan tímann. 
Um daginn keypti ég mér svo dvd myndina um Ilminn og er hún líka frábær. Mæli með að lesa fyrst bókina og horfa svo á myndina. Segi ykkur svo frá fleiri uppáhaldsbókum næst.

Thursday, November 1, 2007

Skáktyrkinn

Jæja elskurnar mínar þá ætla ég að segja ykkur frá bók sem ég er að lesa núna en hún heitir Skáktyrkinn og er eftir Robert Löhr.  Þessi bók á að gerast árið 1770 og fjallar um mann sem kynnir uppfinningu sína: skákvél í mannsmynd, ekki er allt sem sýnist og er það ekki vélin sjálf sem teflir heldur dvergur sem stjórnar henni innanfrá.  
Sagan fjallar svo um þessa blekkingu og þá sem eiga í hlut.  Þessi bók er svolítið sérstök en ég get alveg mælt með henni.  Allavega finnst mér gaman að lesa bækur sem eru svolítið öðruvísi.  
Sá í blaðinu í dag að nýja bókin hans Arnalds Indriðasonar er komin út og er ég að hugsa um að drífa mig í búð um helgina og splæsa henni á mig.
Annars hefur maður lítinn tíma til að lesa þessa dagana því það er mikið læra, en  gott að eiga eitthvað að lesa í jólafríinu sem nálgast óðum.  

Kveðja Sólveig.

Tuesday, October 30, 2007

Saffraneldhúsið

Verð að segja ykkur frá alveg frábærri bók sem ég las fyrir stuttu,  Mig langaði bara ekki að leggja hana frá mér og hlakkaði til að kúra upp í sófa með teppi og lesa og lesa og lesa.  Bókin sem er svona frábær heitir Saffraneldhúsið og er um samband mæðgnanna Maryam og Söru og hvernig þeim tekst að leysa og vinna úr sínum málum.
Bókin er bæði hugljúf og heillandi og hvet ég alla til að lesa hana.  Nú þegar það er brjálað að gera hjá nemendum H.Í í verkefnavinnu og þvíumlíku er nauðsynlegt að hafa eina svona bók til að lesa og hvíla hugann þegar upp í rúm er komið.   
Þurfti að fara í Bóksölu stúdenta í dag sem er ekki frásögu færandi nema hvað þegar ég beið í röðinni þá sá ég að það var komin ný kilja í seríunni um kvenspæjarastofu 1 og auðvitað keypti ég mér hana.  Hún heitir Blue Shoes and Happiness og ég ætla að segja ykkur hvernig hún er og hvort hægt sé að mæla með henni þegar ég er búin að lesa hana.  Jæja þetta er gott í dag meira síðar.